Wednesday, April 27, 2005

Er heimurinn að fara til andsk%&$# ??

Í dag sat ég í rútunni. Vorum lögð af stað yfir í Önundarfjörðin og vorum rétt að keyra fram hjá Bónus, þar sá ég magnþrungna sjón, alveg yfirgengilega frumstæða og athyglisverða sjón sem ég hef aldrei áður orðið vitni af......

....Olavi http://bloggari.is/myndir.php?iImage=30500&iThis=403....

var ekki í leðurdressinu sínu. Veit ekki hvernig ég á að bregðast við þessu en kanski að leður-gallinn sé í þvotti ? , í öll þau fjölmörgu ár sem ég hef séð hann hef ég aldrei séð hann í öðrum fötum en leðurbuxum og leðurvesti í eistlenskri lopapeysu, hvað varð um íhaldssemina ??


En samt gaman að segja frá því að ég var að leita í plötu safninu hennar ömmu áðan og fann þar Leonard Cohen á vinyl og er að hlýða á það núna og þetta er mjög yndælt eftir að maður áttar sig á plötuspilaranum. Hann var einhvað vitlaust stilltur áðan því að hann Leonard kallinn var frekar skrækur en þá uppgötvaði ég það að það var vegna þess að ég var með kallinn á hraðspólun þannig að núna líða hinir ljúfu tónar um hamarinn.

Monday, April 25, 2005

Skandall....

Það rigna bara inn dönsku-skandalarnir núna.. enn og aftur hefur Maju orðið á messunni og misskilið stórlega dönskuna. Seinast var það þegar ég hélt að þegar ég væri að tjá ást mína með því að segja jeg elsker dej þá væri ég bara í góðum málum en svo kom á raunina að orðið dej þýðir deig þannig að þannig fór nú það. En í dag uppgötvaði ég eftir margra ára notkun á orðinu ,,ligeglad" þá í þessu samhengi ; ,,jeg er meget ligeglad i dag" = ég er mjög ánægð í dag.
Nei fussum svei, þetta þýðir víst að standa á sama þannig að alltaf þegar ég hef verið að tjá mig á minni ,,snilldarlegu dönsku" þá hef ég verið að segja ,, mér er mjög alveg sama í dag"

Ajh.. ætti ég ekki bara að fara að rýna í bækurnar núna og leiðrétta allan misskilning.

Thursday, April 21, 2005

Detta mér allar dauðar....

Ég er búin að vera að dútla mér í dag heima hjá ömmu og ákvað síðan að fara í fjársjóðinn hennar ömmu langömmu, nótnasafnið.

Þar fann ég lítilfjörleg og stórmerkileg lög og var (mér til ánægju og yndisauka) að leika mér að spila nokkra littla lagstúfar þar sem ég rak augun í bók, sem heitir því fallega nafni :
,,The first book of fifty hit songs by John Lennon and Poul McCartney"

ég vissi ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta þar sem að ég hafði alltaf haldið því fram að amma sem var 96 ára þegar hún dó hafði verið klassíkin uppmáluð. Alltaf þegar ég kom hoppandi í heimsókn var ætíð kveikt á Shuman, Bach eða Lizt. Svo núna tíu árum síðar er ég að uppgötva að hún var rokklingur inn við beinið.

Þetta finnst mér mjög fyndið en samt æðislegt. :)

Sunday, April 17, 2005

Horfinn heimur íslenskrar sveitamenningar?

Í dag fór ég í áhugaverðan leiðangur með ömmu minni í sveitina. Við fórum á Kirkjuból í Korpudal og hittum það gamla konu sem heitir Eirný. Hún bjó á Flateyri á sínum yngri árum en flutti þaðan þegar hún var sautján ára gömul svona svipað eins og Flateyri verður í mínum augum þegar ég var gömul því að ég ætla að flytja þaðan í haust.

En ég sat þarna gapandi yfir sögunum sem þær stöllur voru að kveðast á milli sín. Þvílíkar breytingar sem hafa gengið í garð! Mér finnst það einnig frekar sorglegt því að það var mjög förugt samfélag hérna einu sinni. Margt fólk bjó í sveitinni og þetta var allt öðruvísi.

Frelsið var t.d. miklu meira. krakkar fengu að fara á öll böll 10-12 ára, þar sem konurnar voru allar í upphlut dansandi polka...

Ég fór ekki einu sinni á áramótaball 15 ára.

Einnig fannst mér það óhugsandi að margt fólk var með berkla á þessum árum og sumir misstu öll börnin sín þar á meðal ein kona sem missti manninn sinn og þrjú börn, trúlofaðist aftur og maðurinn sem hún trúlofaðist dó líka, þvílik óheppni.
En langamma mín fékk einnig berkla en hún var svo hraust að hún hristi það af sér og varð hvorki meira né minna en 96 ára gömul þessi elska.

Eitt sinn ætlaði Eirný að fara á Þingeyri á ball og hún átti heima í sveitinni. Mamma hennar lét hana fá 15 krónur til þess að borga kostnaðinn við ferðina yfir á Þingeyri, en svo fór hún að kveðja pabba sinn út á engi og hann spurði hana hvort hana vantaði ekki pening. Hún segist vera búin að fá 15 krónur.. ,, Það er nú svo lítið" sagði pabbi hennar og hann tók hana aftur inn til sín og fór til konu sinnar og bað hana að fá 25 krónur í viðbót. Hún var hæstánægð með þetta og skundaði með vini sínum og ætlaði að húkka sér far yfir. Þau mættu bíl sem var að ferja trillu og þau voru tekin uppí og þeim var sagt að setjast upp í trilluna þannig að hún fór með trillu yfir Gemlufallsheiði og ég efast stórlega um að einhver annar hafi upplifað svoleiðis. Og hún var 12 ára gömul, ég var að pæla í því hvort einhver unglingur myndi gera þetta nú til dags ?

Svo var líka strákur sem bjó á næsta bæ við hana, hann mátti aldrei gera neitt en Eirný mátti gera hvað sem hún vildi þannig að þau gerðu samkomulag sín á milli að hún myndi alltaf geyma skyrtuna hans og spariskónna í poka undir eitthverjum ákveðnum steini og þegar þau voru að fara á ball þá laumaðist hann alltaf út, fann sparifötin og hélt af stað á ball.

Svo tíðkaðist það að fólk labbaði yfir á Súganda til þess eins að fara á ball.

En svona eru breytingarnar og maður spyr sig hvort þær hafa veðið til góðs. Unglingar kunna t.d ekki að vinna eins og unglingar í þá daga. Og í þá daga tók maður ekki við öllu sem sjálfsögðum hlut heldur vann maður fyrir honum. Greinilegt að börnum var ekki leyft að vera börn lengi, heldur áttu þau að fullorðnast og sinna skyldum og þess háttar.

En það er samt svo gott að vera bara barn og ósjálfbjarga og láta dekra við sig... Hvað finnst ykkur ?

Saturday, April 16, 2005

Thursday, April 14, 2005

Don't think twice, it's alright !

Ég hló dátt í dag.

Bíll kom akandi á fleygiferð, brunandi eftir aðalgötu bæjarins. Ég var bara í þungum þönkum eftir skóladaginn í mínum skemmtilega heimi einsog vanalega. Þegar ég sá að bílbeltið var hálft úti á einum bíl. Þetta kætti mig til muna og ég hló dátt, innra með mér auðvitað en svona getur lífið komið manni á óvart..!

Monday, April 11, 2005

Tilgangslaus æska ?

Ég sat hérna heima hjá ömmu á Eyraveginum þegar að ég fór að spá hvað það var sem ég gerði á uppvaxtarárunum og hér ætla ég að rifja upp breytingaskeið ævi minnar !


Þegar ég var á bilinu 10 - 12 ára hefði þessi lýsing átt vel við mig
,, ekki er vitað um kyn en allt bendir til þess að þessi einstaklingur ber karlkynskynfæri og er þar að leiðandi í hópi stráka, gengur hann í íþróttafötum og neitar að koma inn að borða því hann vill vera í fótbolta daginn út og inn"

Á bilinu 12-13

Þá fór ég í fyrstu þröngu buxurnar mínar og er mér það einnmig minnistætt hve mikið ég emjaði og veinaði. En þetta vandist bersýnilega, ójá beauty is pain !
Þar með hélt ég samt áfram í fótbolta, bara ekki jafn ákaft !
Gelgjuskeiðið reis ákaft. Orðspor Maríu var í hættu.

á bilinu 13-14

Ef ég pæli í því þá er eitthvað sem einkennir unglingaskeiðið á Flateyri og það er rölt í kringum bæinn. Minnistæðast frá þessum árum eru bara endalaus rölt, enda dríf ég varla einn hring núna sökum ógeðis á þessu.
Man líka eftir því að ég kom fram í útvarpsþætti þarna og þar deildi ég því með alþjóð orðrétt ,,Við tölum við steina, röltum í hringi, leggjumst á götuna og bíðum eftir því að bílar keyri yfir okkur" - þetta segir ábygginlega það sem segja þarf. Einnig var mikið hangið í brundhúsinu sem var hvítur kofi sem við fundum þetta fína nafn á. þannig að eitt einkennir þetta tímabil - tilgangslaust rölt... !

á bilinu 14-15
Þá fór að hægja á Maríu og hún var með eindæmum róleg og eðlileg, að sumu leiti, en að öðru leiti er hún ekkert venjuleg. Á þessum árum fór ég meira að einbeita mér að menningalegum hlutum, hennti píku-poppinu út fyrir tónlist o.s.frv. En aftur á móti hefur hún gert hluti sem eru með eindæmum bjánalegir s.s vöfflukökubakstur, nördafélagið Þórbergur, Leikritið um Ellismell ársins, rúnt ,,flipp" og fleira..

svo eru mörg ár sem ég á eftir að fylla í mörgum gleðistundum og skemmtilegum atburðum og hlakka ég mjög til þess að lifa jákvæðu lífi.

Að sumu leiti finnst ég hafa dafnað vel og er mjög þakklát fyrir þessa ,,reynslu" af unglingsárunum en aftur á móti vona ég með eindæmum að barnið mitt verði ekki eins og ég ..

Wednesday, April 06, 2005

Þá kom að því...

Það er svo skrýtið hvað það er erfitt að kveðja fólk. Í morgun þurfti ég að kveðja mömmu mína, pabba og systkini þar sem að þau eru að flytja til Úganda til lengdar og ég get ekki neitað því að það hafi tekið frekar mikið á mig. Ég mun auðvitað heimsækja þau eins oft og ég get en ég veit vel að þetta verður mikil þolraun, sérstaklega fyrst um sinn.
En ég ætla bara að bregða mér í Polly-Önnu leikinn góða og líta á björtu hliðarnar. Meina það eru ekki allir sem fá að fara til Afríku eitthverntíman á hverju ári. og svo er þetta voðalega gott fyrir mömmu og pabba. Þannig að ég brosi í gegnum tárin. En svo er líka alltaf svo gaman að hitta fólk aftur eftir að hafa ekki séð það lengi þannig að það er alltaf erfitt að kveðja en svo þegar maður hittir fólkið aftur er helmingi skemmtilegra.

Ég ætla ekki að niðurdrepa ykkur hin sem lesið þetta þannig að ég ætla bara að hætta núna.

kv. Maja